|
:: Thursday, January 05, 2006 ::
Sæl öll sem ekki hafið gefist upp á að koma hingað í heimsókn sem eru eflaust örfá ef þá nokkur. Nú er staðan þannig að við erum flutt frá Egilsstöðum á Akureyri. Það gerðist í júlí í sumar. Við þokum okkur þannig nær miðju á milli ömmu og afa á Þórshöfn og ömmu og afa í Reykjavík. Við erum nokkuð sátt hérna. Ég er á Sunnubóli sem er leikskóli rétt hjá Múlasíðu þar sem við eigum heima núna og pabbi kennir við Síðuskóla sem er einnig í næsta nágrenni. Mamma er því miður ekki enn komin með vinnu en vonandi stendur það til bóta. Hún var náttúrulega í miklu námi fyrir áramót þannig að nú reynir fyrst verulega á atvinnumarkaðinn hér fyrir norðan. Ég er svakalega dugleg að tala og reyni að tala sem mest og sem oftast, stundum meira að segja þegar ég sef. Ég er líka orðin aðeins frekari en ég var áður þó það hafi kannski verið erfitt :-) .
Ég er líka alltaf að stækka en samt mætti ég alveg stækka hraðar. Ég er bráðum að fara í skólann hans pabba því að það er svo lítið sem ég á eftir að læra í leikskólanum. Ég kann eiginlega allt svona eins og pabbi minn... hann segist kunna allt .... Nú þarf ég bara að fara að skrifa og reikna. Ég kann alveg að lesa og syngja og teikna og rífa kjaft eða það sem unglingar gera almennt.
Á morgun fer ég til Reykjavíkur til ömmu og afa og frænkur og frændar fá einnig að berja mig augum ef þau vilja. Annars er allt í góðum gír nema kannski færslur inn á þessa dagbók.
Tinna Huld
:: Unknown 06:53 [+] ::
...
:: Wednesday, May 11, 2005 ::
Alltaf fersk.. Alltaf að skrifa eitthvað hérna inn eða þannig...
Jæja nú er sumarið komið og ferðalögin að hefjast. Ég fer niður á Djúpavog á föstudag og til Reykjavíkur á laugardag.. kem aftur að sunnan á miðvikudag og svo fer ég út til Danmerkur í júlílok. Þess á milli verð ég að pakka og flytja á Akureyri.
Jíbbí nóg að gera í sumar.
Ég er orðin ansi hreint góð að hjóla á þríhjólinu mínu og ekki nóg með það heldur er ég eiginlega byrjuð að tala enda ekki seinna að vænna því að ég er að fara í samræmt próf í íslensku í vikunni.
Sjáumst eða heyrumst bráðlega.
:: Unknown 03:23 [+] ::
...
:: Tuesday, April 05, 2005 ::
Jæja nú er ég mætt að nýju,
Síðan síðast hef ég verið veik og orðin hress aftur. Ég var veik í viku og átti afar bágt. Nú er ég eldhress og kát.
Ég, pabbi og mamma fórum á Akureyri um síðustu helgi og fórum að skoða fullt af íbúðum. Við skoðuðum 7 íbúðir og okkur leist ekkert á þetta til að byrja með. Fyrsta íbúðin var ekki með neina hjólageymslu auk þess sem margt þurfti að gera. Næsta íbúð var ógeðsleg einnig sú þriðja. Fjórða íbúðin var lítil en fullt af blómum og myndir prýddu hvern fermeter. Fimmta íbúðin var ansi lífleg en þar flugu fjórir stórir páfagaukar um stofuna auk þess sem risa gullfiskar syntu um íbúðina. Þetta leit illa út.
Sjötta íbúðin sló í gegn. Björt 4ra herbergja íbúð í blokk í Múlasíðu og einnig var sjöunda íbúðin sem var í raðhúsi í Grundargerði vænleg. Við buðum í Múlasíðuna og fengum. Jibbí
:: Unknown 07:52 [+] ::
...
:: Saturday, March 12, 2005 ::
Jæja nú stend ég við stóru orðin og reyni að skrifa oftar.
Ég var eitthvað slöpp í dag og svaf lengi. Pabbi horfði á íþróttir á meðan alsæll yfir því hvað ég svaf vel og mamma var að læra úti í skóla. Ég held að þetta hafi verið gott fyrir alla. Núna í kvöld er ég t.d. mjög hress og skemmtileg. Reyni að klifra upp í hillur færi borð og stóla eins og ég fái borgað fyrir það og hlusta ekki á mömmu og pabba öskra og æpa á mig að hætta þessu því að pabbi er með rauðvínsglas og mamma að horfa á Gísla Martein. I couldn´t care less.
Pabbi og ég erum að halda upp á konudaginn í dag því pabbi var í Reykjavík þegar konudagurinn var. Ég ætla að gefa mömmu ís og pabbi eldaði grísahnakka og hafði grafinn lax í forrétt. Rauðvín dagsins var cote de Valdemar. Það er víst uppáhaldið hennar mömmu en ég fékk mér vatn sem er miklu betra en rauða vatnið hans Valda.
Jæja gaman að því að skrifa svona ört. Pabbi fer til Reykjavíkur á morgun og kemur á þriðjudag. Ég reyni að skrifa oftar... bæbæ
:: Unknown 11:47 [+] ::
...
:: Friday, March 11, 2005 ::
Tinna heiti ég enn og er búin að vera ansi löt að skrifa inn á bloggið mitt. Það hefur svo margt gerst síðan síðast að ég veit varla hvar ég á að byrja.
Ég hef því ritunina þar sem þeirri síðustu lauk.
Ég er búin að vera í leikskólanum Frábæ síðan í september. Þar er margt skemmtilegt gert og ekki skemmir fyrir að fóstrurnar eru alveg frábærar. Þær tóku mér mjög vel og eins ég þeim. Krakkarnir á Frábæ eru skemmtilegir en láta illa af stjórn. Ég er alltaf að reyna að ráða hver gerir hvað og hvenær en það fer enginn eftir því sem ég segi. Samt er ég orðin miklu duglegri að tala heldur en í september. Nú er ég orðin svo dugleg að tala að ég má varla vera að því að sofa á nóttinni því að mig langar að læra ný orð. Ég vek því mömmu og pabba reglulega til að læra ný orð. Oft eru það blótsyrði sem bylja á mér en stundum eitt og eitt orð sem er nýtt. Ég fer svo með þau í leikskólann og slæ um mig með nýjum orðum. Uppáhaldsorðið mitt þessa dagana er kall. Allir eru kallar og taka því misvel.
Ég hef gert fleira en farið á leikskólann. Ég fór norður til afa og ömmu um jólin og Doddi var þar líka. Ég fór í heimsókn til Soffíu, Jónasar og barnanna þeirra, Björgvins, Bóasar og Margrétar og var gaman að hitta þau eins og venjulega. Þegar við komum til baka á milli jóla og nýárs fór mamma aðeins í vinnuna og svo flugum við suður til afa og ömmu í Reykjavík. Þar gistum við í Ljósheimum í verkalýðsíbúð og horfðum á flugeldana úr glugganum á 5.hæð. Að vísu var ég sofnuð fyrir miðnætti en það var samt gaman. Við hittum fullt af ættingjum s.s. Fella og Svanhildi, Jón Þór og Dóru auk Erlu Daggar, Soffíu, Maríu, Eyju og Hildi. Einnig Dodda og Ömmu Soffíu, afa Didda, afa Jóa og ömmu Láru. Þetta voru ægilega miklar heimsóknir á fáum dögum.
Ég átti afmæli og fékk fullt af skemmtilegum gjöfum. Ég fékk Línu Langsokks dót frá mömmu og pabba, föt og leikföng frá ættingjum og vinum sem gott er að eiga. Ég er alltaf úti að leika mér í kastalanum sem er á leikvellinum við grunnskólann. Mamma og pabbi eru bæði svo lofthrædd (enda ægilega lítil) að þau þora varla með mér upp í kastalann þannig að þau bíða alltaf dauðhrædd fyrir neðan. Það er ofsalega fyndið að fylgjast með svipnum á þeim. Þau bíða skelfingu lostin eftir því að ég detti úr kastalanum en auðvitað passa ég mig og plata þau stundum með því að þykjast vera að detta. Ég er líka rosalega ánægð með fötuna mína og skófluna því að með því er hægt að moka öllum heimsins efnum upp í fötuna mína og fara með það í burtu.
Ég horði á lokaþáttinn af IDOL í gær með pabba, mömmu, Atla, Brynjari, Þóreyju og Snorra. Þórey vinnur með mömmu og þau Snorri eiga Atla og Brynjar. Það var voða gaman. Atli og Brynjar léku við mig allt kvöldið og ég fékk gulrætur og vínber með ídýfu. Ég fékk líka hamborgara og kók í kvöldmat. Þetta var voðalega skemmtilegt kvöld. Ég sofnaði ekki fyrr en hálf ellefu og var í rosa stuði alveg þangað til að Heiða tapaði en ég hélt með henni. Ég varð alveg brjáluð og ætlaði að hringja í Bubba og Siggu og Þorvald og skamma þau fyrir að vera svona hlutdræg í garð Hildar Völu sem var ágæt en ekki nærri eins góð og Heiða. Þau hrósuðu Hildi alltaf mikið en sögðu svo alltaf þið eruð báðar góðar við Heiðu. Algjört svindl.
Jæja nú er ég búin að vera þokkalega dugleg að skrifa og vona að svo verði áfram.
Munið að skrifa í gestabókina ef þið eruð ekki búin að gefast upp á að bíða eftir því að ég skrifaði hérna aftur.
Bless bless.
:: Unknown 02:59 [+] ::
...
:: Wednesday, August 18, 2004 ::
Það er nú meira hvað maður er latur að skrifa. Ég er orðin svo gömul að maður má bara ekki vera að því að standa í þessu skriftarstússi. Ég er núna orðin eins og hálfs árs gömul og geri núna næstum það sem mig langar til. Ég hleyp út um allt og reyni eins og ég get á þolrifin í mömmu og pabba.
Í dag fóru amma, Drífa frænka og Jack maðurinn hennar til Reykjavíkur eftir að vera hjá okkur í 4 daga. Amma passaði mig tvisvar og er komin í hörku hlaupaform eftir að hafa þurft að elta mig út um allar trissur. Það var gaman. Jack var líka rosalega fínn. Ég var eiginlega alltaf hjá honum. Drífa vildi líka allt fyrir mig gera en einhvern veginn var aldrei tími til að vera hjá einhverjum öðrum en Jack. Amma og Drífa eru fínar en Jack var bara besti vinur minn á meðan hann var hérna. Annars er það helst að frétta af mér að ég er að byrja í skóla þann 13. september. Skólinn minn er Frábær. Þegar ég byrja í Frábæ þá fer nú að líða að því að ég geti tekið samræmd próf. Ég er mikið að spekúlera í að taka eitt samræmt próf í vor og restina eftir ár. Maður er nú ekkert að fara í skóla til að drolla eitthvað. Ég er alveg búin að setja þetta niður fyrir mig. Fyrst læri ég að lesa, svo að reikna og svo get ég tekið prófin.
Ég ætla líka að vera dugleg í tölvunni í vetur. Ég hlýt að fá aðgang að tölvu í skólanum og kemst þar á internetið. Ég og pabbi getum þá sett myndir á heimasíðuna.
Reyni að láta vita af mér reglulega.
Kveðja Tinna Huld.
:: Unknown 09:07 [+] ::
...
:: Thursday, May 06, 2004 ::
Ferðasagan er öll á hold.
Í dag klemmdi ég mig á hurðinni heima. Það var ekki gott. Puttinn datt næstum af. Ég grét ekkert smá eða alla leið upp á sjúkrahús en þar voru einhverjir sem ég átti eftir að heilsa þannig að ég hætti að gráta og fór að kynnast fólkinu þar. Fékk fínan plástur á meiddið sem var stórt. Mamma var öll alblóðug og gólfið í eldhúsinu líka. Ég er með risa putta núna. Hann er eins og SS pulsa með tómatsósu.
:: Unknown 07:37 [+] ::
...
:: Monday, April 19, 2004 ::
Ferðasöguframhald.
Í Þýskalandi lentum við um sexleytið á þriðjudagseftirmiðdegi 6. apríl. Við tókum bílaleigubíl og ætluðum að aka frá Frankfurt til Gumma á svona einum og hálfum til tveimur tímum. Við ókum sem leið lá frá Frankfurt í austur. Eftir kortersakstur
:: Unknown 08:32 [+] ::
...
:: Tuesday, April 06, 2004 ::
Jæja. FERÐASAGAN.
Ég og mamma og pabbi fórum frá Egilsstöðum laugardaginn 3. apríl. Við flugum til Reykjavíkur og fórum þar í fjölskylduferð um Öskjuhlíðina með Bíóvinum. Ég var hrókur alls fagnaðar þegar allir hittust en ákvað svo að sofa restina af ferðinni. Ég steinsvaf svo restina. Við fórum svo heim til ömmu þar sem Erla Dögg og María Ósk frænkur mínar voru að aðstoða ömmu við pössunina á mér enda er svo gaman í Reykjavík að það veitir ekkert af þremur til að passa mig. Mamma og pabbi fóru út að skemmta sér. Daginn eftir sunnudaginn 4. apríl þá fórum við að rúnta um bæinn. Við fórum í afmæli til Birgittu Árnadóttur í Hafnafirði. Eftir afmælið þá fórum við í matarboð til Fella frænda og Soffíu guðmóður minnar. Þar borðuðum við ekki bara heldur gisti ég hjá Soffíu og Maríu um nóttina. Fyrsta nóttin mín að heiman frá foreldrum og það var æði. Pabbi hélt ekki vöku fyrir mér með hrotum og ég svaf því eins og steinn. Að vísu fann Soffía ekki snuðið mitt strax um kvöldið þannig að ég byrsti mig aðeins.
Á mánudeginum þá fórum við í heimsókn í lífeyrissjóðinn þar sem mamma vann og einnig fórum við í búðir og fleira. Það var gaman og að því loknu fórum við mamma, pabba og María frænka í sund í Árbæjarlaug.
Magnea vinkona mömmu kom í heimsókn um kvöldið á meðan fór pabbi í golf...
Á þriðjudeginum áttum við að vakna klukkan fimm en ég var svo spennt að ég gat ekki beðið svo lengi þannig að ég vaknaði um þrjú og fór að berja á foreldrum mínum til að vita hvað klukkan væri. Ég gerði það í um það bil klukkutíma en þá datt ég út af aftur en var svo vakin stuttu síðar af frekar fúlum foreldrum. Skil það bara ekki eins og ég er yndisleg. Við drifum okkur til Keflavíkur þar sem flugvélin okkar var og biðum þar í tvo tíma. Það var sko allt í lagi það var svo margt fólk þar sem ég þekkti að ég var eiginlega bara í því að heilsa fólki í tvo tíma. Það heilsuðu mér margir til baka oh það var svo gaman í flugstöðunum. Við fórum svo í risa flugvél sem sagði búúúúú og þaut af stað. Við flugum til London og biðum þar í 3 tíma og þar var líka gaman því að ég kann nefnilega að segja hæ bæði á íslensku og á útlensku. Þar voru ennþá fleiri og þar heilsaði ég og heilsaði þar til ég fann til í raddböndunum. Englendingarnir heilsuðu mér líka til baka þannig að ég eignaðist fullt af vinum. Við flugum svo áfram til Þýskalands þar sem Gummi á heima og lentum í Frankfurt í enn stærri vél. Ég svaf aðeins í báðum vélunum en ekki þó svo mikið að ég gæti ekki spjallað við ferðafélagana. Þ.e.a.s. aðra en mömmu og pabba.
Þegar við lentum í Þýskalandi þá fengum við bílaleigubíl sem við keyrðum áleiðis til Malsch. Þá vorum við bara þrjú þannig að það var lítið gaman þannig að ég ákvað að sofa. Framhald síðar.
:: Unknown 06:07 [+] ::
...
:: Thursday, March 18, 2004 ::
Hæ aftur.
Nú er ég orðin dugleg að skrifa. Ég er komin í pössun þessa dagana og er hjá Michelle og Bjarka manninum hennar alla daga vikunnar. Þar er voða gaman. Þau eiga Þorstein og við erum vinir. Ég fæ að ráða því sem ég vil ráða og hann fær að ráða því sem ég vil að hann ráði og hann heldur að hann ráði því sem hann vill ráða. Svona er að vera kvenmaður.
Ég var svo þreytt í gærkvöldi að ég gat ekki einu sinni drukkið úr pelanum. Ég sofnaði bara í fanginu á pabba og svaf á meðan hann setti mig í náttfötin og skipti á mér. Svo drakk ég smá úr pelanum áður en ég datt útaf aftur. Þetta var svakalegt. Pabbi er að fara enn einu sinni um helgina og ég og mamma verðum einar heima. Týra varð nefnilega eftir í sveitinni og verður þar þangað til að ég kem heim frá þýskalandi.
Þegar ég verð í bænum þá ætla amma, maría, soffía og Erla Dögg að passa mig. Ég hlakka sko til.
:: Unknown 07:12 [+] ::
...
:: Tuesday, March 09, 2004 ::
Hæ,
Ég er að reyna að vera duglegri að skrifa. Núna hef ég góðan frið því að pabbi (sem er alltaf að reyna að skipta sér af því sem ég skrifa) er í bænum. Þær fréttir eru helstar af mér þessa dagana að ég er byrjuð að ganga of mikið. Ég arka fram og til baka en oftast þó til að elta mömmu til að láta halda á mér. Hún er dáldið dugleg við það og er þess vegna miklu skemmtilegri heldur en pabbi. Ég toga bara í buxurnar hennar og læt aðeins heyra í mér og þá er mér bjargað af köldu gólfinu.
Ég og Týra eigum stundum í stríði. Ég toga í hana og pota í augun á henni og þá fer hún og ég elti. Ég þarf stundum að elta hana talsvert enda fer hún langt í burtu á hverjum flótta og svo aftur til baka þegar ég kem til hennar. Stundum vinn ég því ég er sko þrjósk. Ég vil líka benda á að ég á Týru og þá má ég eiginlega gera hvað sem ég vil við hana. Stundum er ég líka góð við hana og gef henni matinn minn. Þá situr hún kyrr fyrir neðan stólinn minn og borðar allt úr hendinni minni sem ég rétti að henni. Þá erum við vinir.
Ég er líka farin að gefa fimm (give me five), klappa, tromma, vera stór og benda á ýmislegt.
Ég er sem sagt alveg að verða fullorðin kona. Af hverju. Jú. Ég kann að slá stráka, ég kann að tala en það skilur mig enginn, ég get bent á þá hluti sem ég vil og fæ þá og að lokum þá kann ég að halda karlmönnum (pabba) ánægðum með því að klappa og tromma fyrir hann þannig að ég haldi áfram að ráða á heimilinu.
Hafið það gott þangað til næst og jafnvel lengur... Munið gestabókina sem er næstum því tóm.... hún er eins og áður hér vinstra megin klár fyrir ykkur.
:: Unknown 00:50 [+] ::
...
:: Wednesday, March 03, 2004 ::
Sælt veri fólkið.
Ekki hefur nú gengið sem skyldi að tjá sig hér á vefnum upp á síðkastið. Pabbi var nefnilega heima í fæðingarorlofi og hann gat aldrei opnað tölvuna fyrir mig því hann þurfti að sofa bæði fyrir og eftir hádegi og svo lagði hann sig á milli. Ég var bara á gólfinu að leika mér og bíða eftir að mamma sem er byrjuð að vinna komi heim til að gefa mér að borða. Ég reyni nú að leggja mig eins og pabbi til að hafa eitthvað að gera. Það lærum við börnin sem fyrir okkur er haft. Pabbi var heima allan janúar og febrúar en mamma byrjaði að vinna daginn eftir afmælið mitt og vann allan febrúar. Hún er núna komin í smá frí og verður heima í tvær vikur en þá byrja ég hjá dagmömmu, henni Michelle. Hún er kennari eins og pabbi og vinna þau saman. Hún á strákinn hann Þorstein sem ég er stundum að leika mér við og nú leikum við okkur saman allan daginn þegar ég byrja hjá þeim. Það verður rosa stuð. Mér finnst gaman að berja hann í hausinn og toga í hann og klípa. Hann er voða góður við mig enda er ég líka eldri. Hann á ekki eins árs afmæli fyrr en í mars en þá verð ég 1,2 ára. Ég er byrjuð að ganga smávegis. Ekkert voðalega langt í einu því að þá hætta allir að halda á mér. Ég geng bara svona 5 til 10 skref í einu og þykist þá vera orðin þreytt. Maður er nú ekkert orðin svo stór enn að maður þurfi að ganga allan daginn. Ef ég fer líka að ganga of mikið finnst fólki það ekkert spes þó maður gangi. Ég ætla að reyna að ganga sem minnst á næstunni þannig að mér verði alltaf hrósað fyrir að ganga. Sjáið bara, þegar ég byrjaði að sitja uppi þá voru mamma og pabbi voða ánægð og sögðu mér alltaf hvað ég væri dugleg. Í dag sit ég og sit en enginn segir hvað ég er dugleg. Haldiði að maður læri ekki á svona nokkuð. Ég ætla sko ekki að fara að venja fólk af því að hrósa mér.
Ég fékk heimsókn um daginn þegar Soffía frænka úr Þistilfirði, Margrét dóttir hennar og Jónas maðurinn hennar komu í heimsókn með dóttir vinkonu hennar Svölu, Karitas. Ég var orðin svo von því að sofa vel og lengi eins og pabbi að ég svaf næstum því af mér heimsóknina en sem betur fer vaknaði ég tímanlega til að hitta þau og láta þau dást að mér. Það var gaman að láta dásama sig svolítið. Ég fer stundum í skólann með pabba, hann er alltaf að monta sig af mér og gerir sér upp ferðir í skólann til að sýna mig, og þar eru alltaf allir í skýjunum yfir mér og geta ekki beðið eftir að ég komi í 6 ára bekk enda er ég svo dugleg og stillt og reyni að brosa og sýna allar 6 tennurnar sem ég er komin með.
Stundum verð ég reið. Sérstaklega ef ég fæ ekki það sem ég bið um. Mér finnst t.d. mjög gott að borða morgunblaðið en fæ mjög sjaldan að smakka það. Þá verð ég reið. Reiðust varð ég þó þegar ég ætlaði að skríða út með pabba sem aldrei þessu vant var vakandi en hann setti bara ristina undir magann minn og vippaði mér inn í stofu aftur. Þá varð ég sko reið. Annars er bara svo gaman að vera til að það tekur því ekki að rífast. Það er svo margt að sjá og skoða og fikta og spjalla og allt að ég nenni ekki að vera í fýlu.
Jæja annars hefur verið rólegt hjá mér. Fáir komið í heimsókn og sérstaklega fólkið hans pabba. Jónas hennar Soffíu kemur oftast en afi og amma á Þórshöfn eru líka dugleg að koma og skoða mig. Pabbi á aðallega ættingja í Reykjavík og þeim finnst svo langt að koma austur. Það finnst mér ekki gaman, ég vil fá fólk í heimsókn til að skoða mig.
Bæ, bæ.
:: Unknown 05:01 [+] ::
...
:: Sunday, January 04, 2004 ::
Jæja. Sælir nú lesendur og aðrar endur.
Það var nú aldeilis kominn tími á að ég færi að skrifa aftur. Þetta ár sem liðið er líður mér snemma úr minni. Man varla neitt frá því í fyrra. En jólin voru nú samt fín. Ég var í mat hjá mömmu og pabba á aðfangadag og fékk svo ægilega flottan pappír í jólagjöf og meira að segja band utan um sem smakkaðist eins og þurr bréfaþurrka. Ég fékk alls konar pappír í jólagjöf. Rauðan, bleikan og með myndum. Ég held líka að það hafi eitthvað verið inni í pappírnum en man ekki alveg hvað það var enda sjálfsagt eitthvað til að þurfa ekki að gefa mér eins mikinn pappír. Jæja við borðuðum svo eitthvað sem var ekki nálægt því eins spennandi og pappírinn. Ég sofnaði svo fljótlega eftir matinn. Þessi jól voru líka fín því að ég gaf bæði pabba og mömmu ægilega fína hluti sem þau voru ánægð með og svo gaf ég Týru líka smá leikfang þannig að hún væri ekki alltaf að leika með mitt dót. Hún er reyndar rosalega góð við mig og leyfir mér að toga í eyrun á sér og skottið án þess að blikna. Það eina sem fer í taugarnar á henni er þegar einhver kallar á mig því að þá vill hún líka koma og er oftast á undan mér og er skömmuð. Það finnst henni ekki gaman. Hún er líka oft að sleikja mig í framan og það finnst okkur báðum gaman. Hún er sérstaklega dugleg að sleikja mig í framan þegar ég er nýbúin að borða og sumt af matnum er enn framan í mér. Ég gef henni nú líka bita þegar ég er að borða. Þeir hrökkva þá af allsnægtarborði mínu og upp í hana. Hún borðar eiginlega allt sem ég borða. Hún er meira að segja byrjuð að borða gúrkur og banana.
Á milli jóla og nýárs varð ég 11 mánaða og það var eins og fólk fattaði ekki fyrr en nokkrum dögum seinna að ég hefði átt afmæli því að það fengu allir ægilegan móral og ákváðu að gera afmælið mitt veglegt með rosalegum hávaða. Ég svaf það reyndar allt af mér enda var ég búin að fá fínan mat og orðin södd og þreytt. Þetta voru fín áramót.
Nú er sem sagt komið nýtt ár og ég komin á mitt annað ár þó svo að ég sé enn á því fyrsta hvernig svo sem það er hægt
en ég get það eins og svo margt annað.
Ég er reyndar ekki enn byrjuð að ganga sjálf á milli staða en fer ansi langt með því að haldið er í axlirnar á mér. Ég er með þyngdarpunktinn svolítið framarlega svona eins og pabbi og dett því oft á rassinn þegar ég reyni að halda jafnvægi. Ég er líka bara með tvær tennur enn og vona að hinar fari að koma. Það er stundum erfitt að borða þegar bara tvær tennur í neðri góm hamast við að tyggja. Ég held að það fari að koma tennur uppi en ég er reyndar búin að halda það svolítið lengur. En þær verða bara að fara að koma því að pabbi er alltaf að berja á tanngarðinum til að athuga hvort að ekki heyrist tannhljóð og nú er mamma að fara að vinna bráðum og pabbi verður einn heima með mig og ef tennurnar verða ekki komnar á hann eftir að berja þær upp úr enninu á mér. Það líst mér ekki á.
Ég ætla núna að reyna að vera dugleg (eins og ég er nú búin að ætla dáldið lengi) við að skrifa hér inn. Það hefur einhvern veginn dottið upp fyrir. Vonandi verður breyting þar á og endilega skrifið í gestabókina og kvartið ef það hefur ekki verið skrifað lengi.
Kveðjur úr Austrinu.
Tinna Huld
:: Unknown 06:00 [+] ::
...
:: Wednesday, October 29, 2003 ::
Sæl veriði
Jæja þá er Týra loksins komin aftur heim. Hún er búin að vera í sveitinni síðan í júlí að reyna að læra að smala og hún á víst að vera nokkuð góð í því.
Gunnar frændi í Holti kom með hana og var hjá okkur frá sunnudegi til mánudags og við fórum upp að Kárahnjúkum með hann til að sýna honum og sjá sjálf svæðið. Það var voða gaman.
Týra er nú svolítið skrítin hún hleypur um allt og geltir stundun. Ég er ekkert hrædd við hana eða svoleiðis ég bara held mig fjarri henni nema pabbi eða mamma eru nálægt mér. Ég þori líka alveg að snerta hana - smávegis. Hún er ekkert hrædd við mig heldur. Ég man voða lítið eftir henni. Þegar ég var lítil þá var ég alltaf að reyna að ná í skottið á Týru en hún fór alltaf í burtu. Núna reyni ég bara að koma smávegis við fæturna á henni eða við magann eða eitthvað og svo kippi ég hendinni til baka áður en hún bítur hana af. Týra er nefnilega stór og örugglega hættuleg. Hún stekkur upp á pabba og ætlar að éta hann en hann er svo stór að hún getur aldrei borðað hann allan í einu. Týra er skrítin á húðina. Hún er kafloðin og með ægilegan stóran kjaft. Huh.
Ég ætla að ná í skottið á henni seinna. En það er gaman að vera búin að fá hana heim og við ætlum að reyna að verða vinkonur.
:: Unknown 04:17 [+] ::
...
:: Wednesday, October 22, 2003 ::
Dísús, nú eru foreldrarnir alveg að gera útaf við mann.......
Haldið þið ekki að þau hafi byrjað á því að bjóða einhverri konu með lítinn krakka að koma í heimsókn. Þetta er eitthvað smábarn. Hann er ekki nema 7 og hálfs mánaða en ég að verða 9 mánaða. Þetta er nú meira smábarnið. Að vísu getur hann staðið upp en eins og það sé eitthvað stórmál. Ég skreið nú bara til hans kleip hann aðeins í rassinn og ætlaði að kenna honum hvernig á að koma fram við stelpur en þá skreið hann bara til mömmu sinnar og þorði ekki að nálgast mig aftur. Gott. En hvað haldiði, hann kom aftur í dag í heimsókn. Ég byrjaði strax á að skessast aðeins í honum og hann forðaði sér þangað sem mamma hans var. Það var gott þangað til að hann fór að gráta. Þá fór ég líka að gráta. Þetta var svo rómantískt. Ég ákvað því að vera góð við hann og fór aftur til hans. Ég sat hjá honum og allt í góðu, við næstum orðin kærustupar, þegar hann sá kappaksturstólinn minn og sá ekkert annað, skreið yfir mig og að bílnum og ég sem var bara að chilla hjá honum varð allt í einu undir þessu flikki. Hvað er að fólki. Ég var á heimavelli en hann óð yfir mig. Bíðiði bara. Þegar ég kemst á hans heimavöll verður engin miskunn.
Ég er annars alveg að fara að ganga þessa dagana. Ég ætla eiginlega að reyna að læra það samt í fjarnámi. Horfa bara hvernig aðrir ganga og velja svo besta ganginn. Það ganga nefnilega sumir svo asnalega. Ég ætla að velja, kannski fá fólk til að senda mér leiðbeiningar í tölvupósti eða senda mér videospólur með ýmsum gangtegundum og ganghraða. Ég vel fyrst göngutegund og hraða og svo fer ég bara að ganga. Ég held að ég verði fljót að læra þetta.
Ég er líka farin að sofa heilu næturnar. Í nótt t.d. svaf ég alveg frá 11 í gærkvöldi til klukkan hálf átta í morgun þegar mamma vakti mig upp úr miðjum draumi. Mig dreymdi að ég væri sofandi að dreyma einhvern draum. Ég þarf að hringja í draumalínuna og athuga hvað það þýðir.
Jæja. skrifa meira seinna en minni N einu sinni á GESTABÓKINA sem er hér til hliðar.
:: Unknown 08:12 [+] ::
...
|